Book Online
Destinations Abroad

Portúgal (in Icelandic)

Ferðasagan - Ágrip Portúgalfarar

Um var að ræða vikuferð með Úrval Útsýn, þar sem flogið var til Faro sem er í um 30 mínútna fjarlægð frá áfangastaðnum Albufeira á Algarve strönd Portúgals. Albufeira var áður friðsælt fiskiþorp, en er í dag vinsæll og líflegur ferðamannastaður, þar sem veitingastaðir og barir eru á hverju strái. Mest aðlaðandi hluti bæjarins er gamli hlutinn, þaðan sem örstutt er niður á strönd. Strandirnar eru umluktar klettum en inn á milli teygja sandbreiður úr sér.

Höfundar dvöldu fyrst 2 daga á Club Albufeira sem er íbúðahótel rétt fyrir utan bæinn. Eftir tvo daga í Albufeira en svo tókum við bílaleigubíl og keyrðum um, m.a. í austur frá Albufeira meðfram suðuströndinni upp eftir vesturströnd Portúgals til Lissabon (þar sem við dvöldum í tvo daga). Margt er að sjá í Portúgal, ekki síst utan hefðbundinna ferðamannastaða. Fólk er almennt vingjarnlegt. Verðlag er mjög hagstætt, þó nokkuð lægra en t.d. á Spáni.

Bílaleigubílar
Mikið er af bílaleigum í Algarve s.s. stóru aðilarnir, Hertz, Avis og Budget, en auk þess smærri aðilar. Margir bjóða ýmis gylliboð en svo bætist hinn og þessi kostnaður við. Það er mjög ódýrt að leiga bíl í Portúgal og að okkar mati ómissandi þáttur í dvölinni. Við tókum bíl frá Budget og teljum óhætt að mæla með þeim. Sími þeirra í Albufeira er: 289 587 283. Tilboðið hjá þeim og flestum öðrum var 13,500 Esc. Fyrir bíl í 3 daga en 4. dagurinn fylgdi með frítt. Auk þess þurfti að greiða 2,500 Esc. aukalega ef 2 áttu að aka bílnum Alls 16,000 Esc. fyrir fínan Lancia (bill í A-flokki 1,2 l. vél). Alls um 6,000 íslenskar krónur f. 4 daga (mv. Gengi 20.10). Það skal tekið fram að þetta var um miðjan október og önnur verð auðvitað í gildi um hásumar.

Ferðir - Áhugaverðir staðir
Við ókum í vestur frá Albufeira og upp með ströndinni í átt að Lissabon. Við tókum einn dag í að keyra þessa leið og stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni. Einnig er hægt að taka hraðbrautina beint til Lissabon, en það tekur um 2 ½-3 ½ tíma.

Villa Nova de Milfontes er áhugaverður strandbær á vVesturströndinni. Bærinn sjálfur er frekar rólegur og látlaus, óspilltur af iðnaðartúrisma, en strandirnar sem umlykja bæinn eru einstaklega fallegar. Bærinn stendur við mynni árinnar Mira sem rennur út í Atlantshafið, en meðfram ánni og umhverfis bæinn eru endalausar gullnar sandbreiður. Bærinn er vinsæll sumardvalarstaður meðal innfæddra, sem einungis geta verið meðmæli með staðnum.

Cascaix er lítið þorp við vesturströnd Portúgals á leiðinni frá Algarve til Lissabon. Húsin eru flest lágreist og hvítkölkuð í anda máraþorpa. Lítið er um hefðbundna ferðamenn og þorpsbúar virðast ekkert vera að stressa sig of mikið á lífinu og tilverunni. Ef keyrt er aðeins lengra framhjá bænum blasir við falleg strönd og útsýni yfir brimöldur Atlantshafsins.

Lissabon, eitt sinn miðpunktur eins stærsta nýlenduveldis heims, hefur upp á margt að bjóða, þröngar götur í gamla bæjarhlutanum, breiðstræti, hæðir með útsýni yfir borgina og ánna Tejo (Rio Tejo), kastala og kirkjur frá 12.öld, klassískar byggingar, verslanir, iðandi kaffihúsamenningu og strandlengju. Mannlífið er fjölbreytt enda ólíkir menningarstraumar borist með innflytjendum frá fyrrum nýlendum Portúgala í Afríku, Asíu og S-Ameríku. Aðkoman að borginni að sunnan er stórfengleg en þá er keyrt yfir brú (kennd við 25. apríl) sem svipar til Golden Gate í San Fransisco. Óhætt er að mæla með ferð í gamlan miðalda- og mára kastala frá 12. öld (Castelo Sao Jorge) sem gnæfir yfir gamla borgarhlutanum. Útsýnið úr kastalanum ætti ekki að svíkja neinn. Ódýr leið til að skoða gamla borgarhlutann án þess að slíta of mikið skósólana, er að taka sporvagn númer 28, en hann fer um markverðustu staði í gamla bænum.

Ef fólk hefur bíl til umráða þá er skemmtilegt að keyra frá Lissabon meðfram ströndinni til bæjarins Cascais (30 km). Á leiðinni er ýmislegt að sjá, t.d. Monastery Jeronimo tilkomumikið minnismerki um portúgalska sæfara, stórt spilavíti (þar sem annar greinahöfundur vann smá fúlgu), fallegar strandir, smábátahafnir, o.fl. Sumar strandirnar (t.d. Praia do Guincho) eru Í sólbaðisérstaklega vinsælar meðal brimbrettafólks. Frá Cascais er einnig stutt til Sintra.

Sintra er í um 32 km fjarlægð norðvestur frá Lissabon. Sintra var lengi vel vinsæll sumardvalarstaður portúgölsku konungsfjölskyldunnar og aðalsfólks. Mikið er um fallegar hallir og klassískar byggingar og rómantískur blær hvílir yfir staðnum. Náttúran í kring er falleg, en efst á mikilli hæð sem bærinn er byggður á trónir tilkomumikill kastali (Castelo da Pena), sem áður var sumardvalarastaður konungsfjölskyldunnar. Hápunktur ferðar til Sintra er að keyra eða taka rútu upp skógi vaxna hæðina og skoða kastalann, sem helst minnir á ævintýri. Kastalinn sem var byggður árið 1840 á rústum gamals klausturs, er blanda af mörgum stefnum í bygingarlist, arabískum, gotneskum og endurreisnarstíl. Kastalinn er opinn almenningi en innandyra er mjög fróðlegt að skoða hvernig var innanstokks hjá konungsfölskyldunni á 19. öld.

Villa Moura er vinsæll ferðamannabær austan við Albufeira, (20 mín. akstur). Hann er minni en Albufeira og auðvelt er að komast fótgangandi um. Ferðamenn sem sækja þennan stað virðast einnig hafa meira milli handanna.

Allt er mjög snyrtilegt en verðlag e.t.v. aðeins hærra en í Albufeira. Mjög falleg smábátahöfn er í bænum og umhverfis hana er fjöldi veitingastaða og verslana og yfir hásumarið iðar þar allt af lífi. Góð baðströnd er í göngufæri við bæinn, en Falesia-ströndin er þó enn betri , en til að komast þangað þarf bíl. Beygt er til hægri rétt áður en komið er inn í bæinn til að komast á Falesia. Vilamoura er einnig mjög vinsæll staður meðal golfara en fjöldi golfvalla er í nágrenninu.

Gisting
Í smábæjum og víða er boðið uppá gistingu í öllum flokkum s.s. frá litlum heimilislegum gistiheimilum til fínna hótela. Almennt er gisting ódýr í Portúgal

Verðlag
Verðlag í Portúgal er mjög lágt, ekki síst á mat og drykk, hér verða nefnd nokkur verðdæmi: Gengi Esc. er 0,385 kr. (10.12.00)

Öl í verslun: 75 - 90 Esc
Vín í búð: 300 -
Vín hússins á veitingastað: 700 - 1000
Chicken Piri Piri á veitingastað(vinsæll aðalréttur): 900 -1100

Veitingastaðir
Portúgalskur matur er yfirleitt einfaldur og góður. Hráefni er ferskt og mikið er um kjúklingarétti (t.d. Piri Piri) og fisk. Portúgalir nota mikið hvítlauk, ólífuolíu og salt með mat. Saltfiskur (Bacalhau) er þjóðarstoltið og sagt er að það séu 365 leiðir til að matreiða hann. Portúgalir búa líka til góða osta, (t.d. queijo da serra og queijo tipo serra) og jafnvel ennþá betri vín. Ekta portúgalskir veitingastaðir eru yfirleitt n.k. samkomustaðir fjölskyldna og vina og mjög barnvænir. Oft getur þurft að bíða nokkra stund eftir matnum en oftast táknar það meiri gæði. Portúgalir byrja ekki að borða kvöldmat fyrr en milli kl. 20:00 og 21:30.

Mataruppskrift - Hefðbundin Portúgölsk grænmetissúpa. Algarve
Góð súpa sem innfæddur eldaði fyrir okkur í Lissabon.

Hráefni:
kartöflur, laukur, gulrætur, 1-2 teningar af krafti, smá salt.

Hráefnið er skorið smátt og sett í pott með vatni. Soðið í um 15-20 mínútur. Þá notaði viðkomandi tæki (sem við könnuðumst ekki við) til að merja grænmetið í mauk. Soðið áfram um stund. Við vorum hissa á því hversu góð þessi súpa var, ekki síst sökum einfalds hráefnis. Væntanlega hægt að nota ýmiss áhöld til að merja grænmetið.

Við mælum með....
Ef fólk hefur ekki áhuga á að umgangast mikið samlanda sína þegar það fer til útlanda, er því ráðlagt að leita út fyrir Albufeira. Hentugt er að leigja sér bílaleigubíl því annars getur verið erfitt að koma sér á milli staða. Við mælum t.d. með því að keyra upp vesturströnd Portúgals í átt að Lissabon, og koma við á stöðum eins og Sagres (lítill fiskibær, þar sem hægt er að finna fallegar strendur og kletta), Cascaix eða Vila Nova de Milfontes (sjá lýsingu að ofan). Einnig er skemmtilegt að keyra í austurátt frá Albufeira og koma við á fallegum stöðum sem eru ekki jafn fjölfarnir af túristum og Albufeira. Dæmi um slíka staði eru strandbæir austan við Albufeira, t.d. Vilamoura (sjá lýsingu að ofan), Quinta do Lago og Vale do Lobo.

Fyrir þá sem vilja ekki fara of langt frá Íslandi (að undanskildu veðrinu) þó svo þeir fari utan mælum við með Albufeira. Ekki er óalgengt að rekast á samlanda sína á förnum vegi, sjá litla íslenska fána og íslenska matseðla á veitingastöðum, eða heyra götusala mæla orð eða setningar á íslensku (stundum miður ósæmileg). "The Strip" er fjölfarin gata í Albufeira, þangað sem fólk flykkist þegar skyggja tekur í leit að mat og skemmtun. Þessi gata hefur fengið heitið "Laugavegurinn" meðal hinna fjölmörgu Íslendinga í Albufeira. Gamli bærinn sem er nær ströndinni er þó meira aðlaðandi, þó hann sé rólegri einkum á kvöldin, en þar má einnig finna nokkra veitingastaði sem bjóða meðal annars upp á íslenska matseðla.

Höfundar: Sveinbjörn H. og Hákon Þ.



Back       Print  
 
66 north SOS