Book Online
Destinations Abroad

Indland - land andstæðna (in Icelandic)

"Áttu kók" spurði ég snáðann sem varla var nema 11 ára gamall. Nei, ekkert kók bara "Thums up" svaraði hann með einlægu og glaðlegu brosi sem oft einkennir Indverja. Ég leit á drykkinn "Thums up" og sá að hann var svartur og þar með líkur kóki og sagði allt í lagi, eina "Thums up". Eftir að hafa svolgrað drykknum í mig og mætt forvitnum augum nærstaddra spurði ég hvað ég ætti að greiða mikið? "Drí fifty" sagði hann að bragði með smámæltum og oft óskiljanlegum hreim marga Suður-Indverja, ég sagði aftur "how much" og fékk alltaf sama svarið þar til ég loks áttaði mig og sagði ó "three fifty" og hann svaraði að bragði já "drí fifty". Nærstaddir hlógu góðlátlega að þessum litla framburðar misskilningi, sem ég átti eftir að kynnast betur næstu 2 mánuði. Þetta voru fyrstu kynni mín af Indverjum eftir að hafa rambað á einskonar bar sem var utan dyra. Ég var nýkominn úr Júmbó vél "British Airways" flugfélagsins eftir um 8 klukkustunda flug frá London til Madras. Þetta var á sólríkum degi og hitinn um 40 stig snemma í apríl í Madras sem er stærsta borgin á Suður-Indlandi og jafnframt höfuðborg Tamilnadu héraðs Indlands.

Það að koma frá Evrópu til Indlands eru töluverð viðbrigði svo ekki sé meira sagt. Þetta á ekki síst við um Suður-Indland þar sem íbúarnir eru af Dravída kynstofni sem er hinn upprunalegi kynstofn Indlands. Dravídar þessir sem flestir eru Tamílar eru smávaxnir, snaggaralegir og mjög dökkir á hörund. Indland er land sem heyrist oft um í fréttum og þá helst vegna neikvæðra atburða svo sem átaka milli fylgismanna trúarbragða, flóða, fátæktar eða annarra hörmunga. Við sjáum myndir í sjónvarpi af átökum, iðandi mannlífi á götu og svo framvegis. Fáir vita meira um þetta framandi land sem er hið næst fjölmennasta í heimi á eftir Kína með íbúatölu rúmlega 1 milljarð sem vex um rúm 2% á ári. Sumir segja að Indlandi svipi meira til heimsálfu en lands. Það er ekki að undra þar sem frá norðri til suðurs og austur til vesturs er fólkið öðruvísi, tungumálið annað, siðir aðrir og landið er öðruvísi. Það er eitthvað við landið sem heillar og togar í mann þangað aftur og aftur, þrátt fyrir hitann, mannmergðina, hægaganginn og þess háttar sem við afkomendur víkinganna erum alls óvanir. Þolinmæði og umburðalyndi er óneitanlega einn af kostum Indverja. Fjölskyldan sem ég bjó hjá á Indlandi hafði orð á því að mig skorti nokkuð upp á þessa kosti og vildi meina að það hefði farið of mikið víkingablóð í mig.

Landið
Indland er sjöunda stærsta ríki jarðar eða um 6,2 milljónir ferkílómetrar sem er 62 sinnum stærð Íslands. Þar býr jafnframt fimmtungur alls mannkyns. Mannfjölgun er stærsta vandamál indverskra stjórnvalda í dag. Erfitt er að stemma stigu við henni enda er það trú margra einkum úr lágstétt að eina voninn sé að eiga mörg börn í þeirri von að eitthvert þeirra muni spjara sig og þar með geta séð fyrir foreldrum sínum í ellinni. Indlandi er skipt í 24 ríki og 8 sambandsríki. Mörg þessarar ríkja hafa sín eigin tungumál, þó hindí sé hið opinbera tungumál á Indlandi og eitt af sameiningartáknum Indverja. Þvert yfir norðurhluta landsins liggja Himalajafjöll, hæstu og tignarlegustu fjallgarðar jarðarinnar. Sunnar taka við frjósamar og víðáttumiklar sléttur stórfljótana Indus, Ganga og Brahmapútra þéttbýlustu svæði Indlands. Stórsléttur setja svip sinn á Suður Indland.

Fólk
Það er ekkert til sem heitir dæmigerður Indverji þess var ég fljótt áskinna á ferðalagi mínu. Suður Indverjar (Dravídar) eru yfirleitt dökkir á hörund, lágvaxnir og snaggaralegir, fólk af mongólastofni er víðast í Himalaya og hálendinu austan til. Ein grein hvíta kynstofnsins (Aríar) stendur að baki margra þjóða á Norður og Suður- Indlandi og telur um 70% Indverja. Þetta fólk er yfirleitt dekkra yfirlitum en fólk af Kákasusstofni annars staðar í heiminum, en í sumum norðurhéruðunum er fólk viðlíka ljóst og Evrópumenn. Litarháttur fer einnig mikið eftir því hversu mikilli sól fólk er í. Þannig eru fátæklingarnir sem hanga á götunum yfirleitt mjög dökkir. Helst finnst mér þegar ég lít til baka að hægt sé að þekkja Indverja á augunum. Flestir eru mjög dökkbrýndir og fremur alvarlegir til augnana en samt ávallt stutt í brosið og glaðværðina hjá fólki sama við hversu bág kjör það býr.

Trúarbrögð og Saga
Um 1500 fyrir Krist réðust Aríar inn í Indland og lögðu grunn að merkasta þætti indverskrar menningar Hindúasiðar sem er afsprengi samruna trúabragða hinna fornu Aría og trúabragða og helgisiða fyrri kynslóða.

Langflestir Indverja eða rúmlega 80% eru hindúatrúar, sem er meðal elstu trúarbragða í heimi og gerð indversks þjóðfélags nú á dögum má rekja beint til skiptingar Aríasamfélagsins í 4 stéttir. Þessar stéttir eru; prestar, stíðsmenn, kaupmenn og bændur og þrælar. Fimmti flokkurinn, hinir ósnertanlegu, var neðst í samfélagsstiganum. Þessar einföldur erfðastéttir hafa þróast yfir í ótrúlega flókið kerfi með nokkur hundruð stéttastigum sem lauslega má skipta í þrjá flokka, hástétt, miðstétt og lágstétt. Gifting utan þessara stétta er óalgeng.

Byggingastíll Múhammeðsmanna (mógúlana) sem hlið glæsilega Taj Mahal ber glöggt vitni um var allsráðandi á Norður-Indlandi og stórir hlutir landsmanna snerust til Íslams, sem eru í dag næst fjölmennustu trúarbrögð Indlands eða um 11% Indverja. Það er arfleið þess að á 12. öld var allt norður Indland í höndum Múhammeðsmanna. Þeir sem snérust til Íslam voru einkum úr lágstétt, enda boðaði Múhammeð að allir væru jafnir fyrir guði (Allah) óháð stétt. Múslimar eru því fjölmennari í dag í lægri stéttunum.

Það urðu hins vegar Bretar sem leistu stjórn mógúlana af hólmi Stjórn Breta stóð til 1947 við lok hennar blossaði upp rótgróin fjandskapur Hindúa og Múhammeðsmanna, sem endaði með stofnun sérstakst ríkis múslima Pakistan.

Áhrifa stjórnar Breta gætir mjög víða s.s. enskur byggingarstíll finnst víða á nýlegri byggingum, vinstri umferð, allt menntafólk talar ensku svo fátt eitt sé talið. Á ferðalagi mínu var ég oft spurður hvaðan ég væri ég frá Íslandi svaraði ég, þá sögðu viðmælendur ósjaldan "oh England, very nice country" ég gafst yfirleitt upp á að leiðrétta þetta, þar sem sumir virtust ekki þekkja önnur Evrópulönd. Einn viðmælanda minna spurði reyndar hvort hægt væri að ganga að stúlkum í stórmörkuðum á Íslandi og bjóða þeim heim í ástarleiki? - það hafði hann heyrt að væri hægt í Svíþjóð.

Um tvö og hálft prósent Indverja eru kristinnar trúar og tvö prósent eru Síkhar, sem þekkjast á vefjarhöttum sínum öðru nafni túrbönum og skeggi. Á ferðalögum mínum reyndust Síkhar mér vel enda mjög hjálpsamir og fljótlega komst ég upp á lagið með að spyrja helst menn með vefjarhetti til vegar. Síkhar búa aðallega í Punjab en finnast þó um allt Indland, þeir eru yfirleitt fremur stórir og miklir og hermennskan er þeim í blóð borinn, þannig að mikill fjöldi þeirra er í Indverska hernum. Síkha konur eru yfirleitt mjög fallegar eins og indverskt kvenfólk er yfirleitt. Indverskt kvenfólk er yfirleitt mjög hárfagurt með langt dökkt hár. Einnig fannst mér áberandi hvað þær virtust alltaf hreinar og vel til hafðar sama úr hvaða stétt viðkomandi var.

Indland er eins og áður sagði fjölríkja og fjöltrúabragða land. Gifting er því nánast alltaf innan sömu stéttar, sama ríkis og sama trúabragða. Helstu undantekningarnar eru meðal menntafólks í borgum. Þetta og aðdragandi giftingar kann að hljóma einkennilega fyrir okkur vesturlandabúa, en eftir að hafa búið hjá innfæddum kemst maður nær því að skilja gildin sem liggja að baki. Ein ágætis kona sem ég bjó hjá um tíma í Bombay átti son á giftingaraldri sem var við nám í Bandaríkjunum. Aðspurð sagðist hún vilja finna góða konu handa syni sínum sem hugsaði vel um hann og gæfi honum góðan mat. Fjölskylda hennar er Jain trúar sem svipar til Búddista og hún sagði að sér væri sama hvort fjölskylda væntanlegrar brúðar væri Jain trúar þó það væri æskilegast, svo framarlega sem þau væru ekki múslimar, þar sem alltaf væru einhver vandræði með þá. Þar sem vitað var að hún átti son á giftingaraldri komu oft mæður í heimsókn til hennar með dætur sínar á giftingaraldri, svona óbeint til að sýna þær. Sonur hennar hefði svo getað boðið einhverjum þessara stúlkna út til að kynnast þeim, þannig að endanlegt val er í hans höndum. Meðal lægri stétta einkum til sveita tíðkast frekar að makinn sé ákveðinn af foreldrum. Indverjar eru þjóðernissinnaðir og stoltir af því að vera Indverjar sem þeir líta allir á sig, þrátt fyrir fjölríkjasambandið. Því eru hjónabönd við útlendinga óalgeng en helst meðal menntafólks sem lagt hefur stund á nám erlendis. Ég sæi til dæmis ekki indverska fjölskyldu búsetta í Englandi taka því vel ef dótturinn kæmi heim með blökkumann og segði að hann væri kærastinn. Líklega yrði allt vitlaust og henni sagt að indversk stúlka ætti að finna sér indverskan mann og ekki orð um það meir.

Lokaorð
Ferðalag til Indlands lætur engan ósnortin, andlega né líkamlega. Ég léttist til að mynda um 6 kíló á ferðalagi mínu enda fékk ég fjórum sinnum slæma magakveisu með öllru tilheyrandi. Ástæða þess var aðallega sú (frumstæða) þörf að þurfa helst alltaf að borða kjöt daglega. Í afskekktum héruðum þar sem hreinlæti er oft ábótavant getur þetta verið varasamt og mun tryggara er að halda sig við grænmetisrétti nema á fínni stöðum. Flestir Indverjar eru grænmetisætur og flestir staðir bjóða því upp á mikla fjölbreytni í þeim réttum. Indland er uppspretta andlegrar menningar á margan hátt hvort sem litið er til trúarbragða, andlegrar íhugunnar eða annars. Andstæður sem þar sjást milli algerrar örbirgðar og mikils ríkidæmis láta engan ósnortin. Að lokum er vert að geta þess fyrir áhugasama að besti tími til ferðalaga um Indland er frá miðjum september eftir regntímabilið og framm í byrjun apríl en þá er hitinn orðinn nánast óbærilegur eins og ég fékk oft að kynnast.

Þessi grein birtist í DV.

© NETIÐ markaðs- og rekstrarráðgjöf | All rights reserved

Back       Print  
 
66 north SOS